Fara í innihald

Ástralía (heimsálfa)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir Ástralíuheimsálfuna.

Ástralía, líka kölluð Sahúl, Ástralínea eða Meganesía, til aðgreiningar frá meginlandinu Ástralíu, er heimsálfa sem nær yfir Ástralíu, Tasmaníu, Nýju-Gíneu, Seram, hugsanlega Tímor, og nærliggjandi eyjar. Rökin fyrir því að telja þessi lönd til sérstakrar heimsálfu eru þau að þau liggja öll á sama landgrunni. Höfin sem liggja milli þeirra, Arafurahaf, Torressund og Basssund, eru öll grunn og þau hafa tengst á þurru landi þegar sjávarstaða var lægri við hámark síðasta jökulskeiðs fyrir um 20.000 árum. Þegar sjávarmál tók að hækka skipti það þessu meginlandi í þurrt láglent meginlandið Ástralíu og fjallaeyjarnar tvær, Tasmaníu og Nýju-Gíneu. Lífríki landanna er þar að auki skylt.

Nýja-Sjáland er ekki hluti af þessari heimsálfu heldur er leifar sokkna meginlandsins Sjálandíu. Bæði Ástralía og Nýja-Sjáland eru skilgreind sem hlutar stærri heimsálfanna Ástralasíu og Eyjaálfu. Algengast er að nota hugtakið Eyjaálfa þegar heimsálfurnar eru taldar upp þótt hún nái yfir mörg aðskilin landgrunn í Kyrrahafi.

Ástralía er minnsta og láglendasta byggða heimsálfan. 8,5 milljón ferkílómetra eru þurrlendi og 2,5 milljón ferkílómetrar eru hafsvæðið yfir Sahúlgrunni. Helmingurinn af því er innan við 50 metrar á dýpt. Í jarðsögulegu samhengi var samfellda meginlandið kallað Ástralasía en á 8. áratugnum var farið að nota heitið Stór-Ástralía. Heitið Sahúl (dregið af landgrunninu) var tekið upp á ráðstefnu árið 1975. Árið 1984 stakk W. Filewood upp á heitinu Meganesía („Stórey“). Richard Dawkins stakk upp á heitinu Ástralínea árið 2004. Það hefur líka verið kallað Ástralía-Nýja-Gínea.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.