Fara í innihald

Maður og verksmiðja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
sýnishorn
Úr kvikmyndinni Maður og verksmiðja

Maður og verksmiðja er kvikmynd eftir Þorgeir Þorgeirson frá árinu 1968. Hún er tíu mínútna löng, svart-hvít með hljóðrás en án samtala.

Í efnisskrá sem fylgdi sýningu myndarinnar sama ár á Íslandi var henni lýst sem svo: „Margvegsömuð sumarvinna námsmanna er tekin ögn til umhugsunar ásamt því umhverfi, er ein síldarverksmiðja hefur upp á að bjóða.“[1] Tökur á myndinni fóru fram á Raufarhöfn árið 1966.

Þorgeir lýsti því ítrekað yfir að þetta væri eina kvikmynd hans sem hann hefði fullklárað: „Ég starfaði tíu ár að kvikmyndum, þannig að afraksturinn er mínúta á ári og það þykir mér ágætt,“ sagði hann í viðtali árið 2000.[2]

Maður og verksmiðja var valin í flokk úrvalsmynda á Kvikmyndahátíðinni í Edinborg árið 1968 en sýningarhaldi á þeim myndum var haldið áfram í Kaliforníu í kjölfarið. Myndin hlaut heiðursverðlaun á Kvikmyndahátíðinni í Locarno í Sviss sama ár.[3] Um móttökur verksins á Íslandi skrifaði Þorgeir: „Hér heima varð þessi mynd fljótlega algjört tabú. Hún þótti til lítils sóma fyrir þjóðina og líkleg til að spilla fyrir sölu sjávarafurða. Fréttatilkynningu um ofannefnda viðurkenningu í Edinborg tók þáverandi fréttamaður sjónvarps, Eiður Guðnason, og fleygði í ruslakörfuna að mér ásjándi með þeim orðum, að „sjónvarpið“ mundi aldrei taka þátt í því að upphefja „svona hroða“. Mér lærðist því fljótlega að fara með allar viðurkenningar á „Manni og verksmiðju“ eins og mannsmorð.“[4]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sigurður Jón Ólafsson. „Að uppgötva umhverfið“. Sótt 17. maí 2014.
  2. Kolbrún Bergþórsdóttir. „Hef lítið gaman af valdi“.
  3. Pétur Valsson. „Kvik mynd list: Tilraunakvikmyndir á Íslandi 1955-1985“ (PDF). bls. 26. Sótt 2014.
  4. Þorgeir Þorgeirson (1996). „Um sannindi og sparifataþjóðina“. Tímarit Máls og menningar: 103.