Espihóll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Espihóll er bær og gamalt höfuðból í Eyjafjarðarsveit og tilheyrði áður Hrafnagilshreppi.[1] Sunnan við bæinn er stór hóll með sama nafni.

Samkvæmt því sem segir í Landnámabók var fyrsti bóndinn á Espihóli Þórarinn, sonur Þóris Hámundarsonar, dóttursonar Helga magra. Bærinn er nefndur í ýmsum fornritum og kemur mikið við sögu í Víga-Glúms sögu.[2] Espihóls er einnig getið í Sturlungu og þar var Kolbeinn grön Dufgusson drepinn af mönnum Gissurar Þorvaldssonar árið 1254 til hefnda fyrir Flugumýrarbrennu.[3]

Á Espihóli var jafnan stórbýli og þar bjuggu ýmsir helstu höfðingjar Eyfirðinga. Bærinn var líka löngum sýslumannssetur. Á 17. öld bjó þar Björn Pálsson sýslumaður,[4] sonarsonur Guðbrandar Þorlákssonar biskups, og Magnús sonur hans eftir hann. Kona Magnúsar var Sigríður eldri, dóttir Jóns Vigfússonar biskups, og urðu þau mjög kynsæl. Á síðari hluta 18. aldar bjó Jón Jakobsson sýslumaður á Espihóli.[5] Hann var einn af frumkvöðlum upplýsingarinnar og gerði meðal annars fyrstu tilraunir sem vitað er um hérlendis til vetrarrúnings á sauðfé. Sonur hans, Jón Espólín, sýslumaður og sagnaritari, fæddist á Espihóli 1769 og kenndi sig við bæinn.[6]

Stefán Thorarensen, sonur Stefáns Þórarinssonar amtmanns, bjó á Espihóli og drukknaði í Eyjafjarðará vorið 1844. Eftir það þótti reimt á þeim slóðum, einkum á Stórholtsleiti milli Espihóls og Stokkahlaða.

Upp úr miðri 19. öld bjó Eggert Briem sýslumaður á Espihóli um tíma[7] og þar fæddist dóttir hans, Elín Briem, skólastjóri og höfundur Kvennafræðarans.[8]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Sarpur.is - Býli, Fjall, Fólk, Hestur, Tún“. Sarpur.is. Sótt 29. maí 2024.
  2. Víga-Glúms saga.
  3. „Northwest Iceland“. web.archive.org. 22. júlí 2011. Sótt 29. maí 2024.
  4. „Listi yfir handrit | Handrit.is“. handrit.is. Sótt 29. maí 2024.
  5. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 29. maí 2024.
  6. Essbald (2. september 2017). „Espihóll í Eyjafirði“. Áfangar.com. Sótt 29. maí 2024.
  7. „Fulltrúar á Þjóðfundinum 1851“. Alþingi. Sótt 29. maí 2024.
  8. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 29. maí 2024.